Um verkefnið

“Ísbirnir á villigötum” (2019-2021) var þriggja ára listamannaleitt rannsóknarverkefni, unnið í samstarfi íslenskra og alþjóðlegra háskóla og listasafna. Markmið verkefnisins var að auka þekkingu á fjölþættum tengslum dýra, manna og umhverfis á tímum heimsvæddrar loftslagshlýnunar og hækkandi sjávarmáls. Áhersla var lögð á að rannsaka ferðir ísbjarna til Íslands í sögulegu og samtímalegu samhengi. Unnið var út frá sjónarhorni samtímlista, þannnig að í verkefninu voru mörk menningar og raunveruleika skoðuð sem og samverkandi áhrif loftslagsbreytinga á umhverfisrof og fólksflutninga. Í rannsókinni var safnað saman textum, myndum, hljóði, lífsýnum og öðru efni sem tengist ferðum ísbjarna til landsins. Aðferðafræðin fól í sér sértæka nálgun á tengslum þeirra heimilda sem aflað var við menningar- og umhverfislegt samhengi ásamt því að draga fram, túlka og miðla þeirri undirliggjandi merkingu sem finna má innan sjónræns og ritaðs efnis. Með því að setja dýrið í forgrunn og beina ljósi að hinu margbreytilega hlutverki þess í veröldinni sem lífveru, sambýlisveru, gesti, umhverfisvísi, afsteypu og skrautmun í senn var leitast við að afbyggja „öðrun” þess í mannheimum. Um leið voru niðurstöðurnar mikilvægt framlag til orðræðunnar um hlutgervingu manna og dýra, sem jafnframt varpa ljósi á spurningar um eignarhald í umhverfispólitísku samhengi. Verkefnið var unnið í samvinnu við stofnun í Bandaríkjunum, en með því að vinna rannsóknina á tveimur ólíkum stöðum urðu til
samanburðarniðurstöður sem skírskota til fjölþættara og víðara menningarsamhengis.

Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði Rannís til þriggja ára (2019-2021) og er fyrsta rannsóknarverkefnið á sviði myndlistar sem hlýtur slíkan styrk. Verkefnið er hýst innan Listaháskóla Íslands og er unnið undir stjórn aðalrannsakendanna Bryndísar H. Snæbjörnsdóttur, prófessors við myndlistardeild Listaháskóla Íslands, og Mark Wilson, prófessors í myndlist við University of Cumbria í Bretlandi. Meðrannsakendur verkefnisins eru Kristinn Schram, dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands, og Æsa Sigurjóndóttir, dósent í listfræði við Háskóla Íslands. Verkefnið er unnið þvert á fræðigreinar, en þátttakendur koma úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands, Institute of the Arts í University of Cumbria (UK), félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands, og íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Samstarfsstofnanir eru Anchorage Museum í Alaska (US), Listasafnið á Akureyri, Bureau of Ocean Energy Management (US), Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Ströndum og Þjóðminjasafn Íslands.